Málþing á alþjóðlegum degi læknisfræðilegrar eðlisfræði 2025
- fleistjorn
- Dec 6, 2025
- 1 min read
Málþing FLEÍ og Landspítalans háskólasjúkrahúss (LSH) var haldið á alþjóðlegum degi læknisfræðilegrar eðlisfræði þann 7. nóvember síðastliðinn. Fjölbreyttur hópur heilbrigðisvísindastarfsmanna og -nema sóttu þingið sem fram fór í hringsal Landspítalans.
Hanna Björg Henrysdóttir formaður FLEÍ og deildarstjóri geislameðferðardeildar LSH setti málþingið og var fundarstjóri. Á meðal erinda á málþinginu var yfirlit yfir stöðu greinarinnar í Evrópu og Svíþjóð frá Itembu Lannes, læknisfræðilegum eðlisfræðingi við Karolinska háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi og formanni Professional Matters nefndar European Federation of Organisations for Medical Physics. Itembu fór meðal annars yfir hvernig ferlið í Svíþjóð hefur gengið fyrir sig að samræma sænskt regluverk við evrópska öryggisstaðalinn um jónandi geislun sem var settur árið 2013.
Kristinn Kristinsson og Gauti Baldvinsson, læknisfræðilegir eðlisfræðingar á geislameðferðardeild LSH fluttu erindi um annars vegar reikniaðferðir við geislameðferðarplön og hins vegar um hvert hlutverk læknisfræðilegra eðlisfræðinga er þegar ný aðferð við geislameðferð er tekin í notkun á sjúkrahúsi.
Garðar Mýrdal, fyrrverandi læknisfræðilegur eðlisfræðingur á geislameðferðardeild LSH flutti fróðlegt erindi um sögu radíummeðferðar á Íslandi. Að lokum flutti Eyjólfur Guðmundsson, læknisfræðilegur eðlisfræðingur á Geislavörnum ríkisins og aðjúnkt við Háskóla Íslands, erindi um aðkomu læknisfræðilegra eðlisfræðinga að öruggri notkun jónandi geislunar í læknisfræði en hann kom m.a. inn á misræmið í tilskipunum alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA) um að hæfni læknisfræðilegra eðlisfræðinga sé sérstaklega staðfest af yfirvöldum.










